Innlent

Mikið um dýrðir á sjötugum Sjómannadegi

Sjómannadagurinn er í dag haldinn hátíðlegur í sjötugasta sinn um allt land. Að venju er því íslenski flotinn, um 2500 skip og bátar bundnir við bryggju á þessum hátíðisdegi sjómanna.

Í Reykjavík hófust hátíðahöldin með athöfn í Hólavallakirkjugarði klukkan níu en síðan verður dagskrá víða um bæinn liðlangan daginn. Formlega verður dagurinn settur klukkan tvö með ávörpum í Hafnarhúsinu.

Furðufiskar verða til sýnis á Miðbakkanum Reykjavíkurhöfn milli klukkan tíu og fjögur. Þar verður líka ljósmyndasýning af því hvernig sjómenn og fjölskyldur þeirra hafa haldið upp á daginn í gegnum tíðina.

Hvalasetrið verður opið og aðgangur þar ókeypis. Sjóstangaveiði og lundaskoðun verður í boði, opið hús hjá Sægreifanum með humarsúpu undir ljúfum sjómannavölsum.

Fjölmargt annað verður í boði en dagskrána fyrir Reykjavík má skoða á slóðinni hátíðhafsins.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×