Innlent

Telur sæstrengi frekar vernda hafsbotninn við Surtsey

Óli Tynes skrifar

Deilt hefur verið um þá ákvörðun að leggja sæstrengi í gegnum friðlandið við Surtsey. Jafnvel talað um að hún verði tekin af Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri Farice telur litlar líkur á því. Hann bendir á að strengirnir Danice og Greenland connect liggi aðeins í gegnum smá horn á hinum friðlýsta hafsbotni við eyna.

Hann telur að jafnvel verði hafsbotninn betur verndaður en áður við þessa lögn. Á meðfylgjandi korti má sjá hvar strengirnir liggja.

Stóri ferhyrningurinn nær yfir allt verndarsvæðið. Innan hans má hinsvegar veiða með botnvörpu allt að innri markalínunni á kortinu. Það svæði er alfriðað.

Guðmundur segir að eftir að strengirnir hafi verið lagðir verði bannað að veiða fjórðung úr mílu sitt hvorum megin við þá. Þannig sé hægt að segja að svæðið verði betur verndað eftir lagningu þeirra.

Um aðferð við lagningu strengjanna segir Guðmundur að þeir séu plægðir einn til einn og hálfan metra niður í sjávarbotninn.

Við það myndist mjó plógför sem jafni sig á skömmum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×