Eiður Smári Guðjohnsen tognaði á magavöðva í leik Barcelona og Valencia í Spænska konungsbikarnum í gærkvöld. Þetta kom í ljós við læknisskoðun í morgun.
Eiður Smári sagði í samtali við Vísi að í fyrstu hafi hann haldið að magavöðvi hefði rifnað þar sem tilfinningin hefði verið eins og hnífstunga í kviðinn í hvert skipti sem hann hafi dregið andann eftir leikinn. Í morgun hafi hins vegar komið í ljós að meiðslin voru ekki eins alvarleg og fyrst var talið. Eiður Smári æfði ekki með liðinu í morgun en gekkst þess í stað undir læknismeðferð.
Ekki er vitað á þessari stundu hversu lengi Eiður verður frá vegna meiðsla. Eiður Smári lék allan leiktímann en Valencia vann leikinn með þremur mörkum gegn tveimur.
Eiður tognaði í leiknum gegn Valencia
