Innlent

Ferðaskrifstofur uggandi yfir gengissveiflum

Þeir eru eflaust margir sem dreymir um að komast á suðræna strönd, eða bara eitthvað út fyrir landsteinana. Slíkur munaður er verður þó dýrari með hverjum deginum eins og fréttastofa komst að í dag.



Fréttastofa hafði samband við nokkrar ferðastofur í dag. Þar hafa menn áhyggjur af þróun mála en allur gangur er á því hvernig þær bregðast við. Sumar hafa þegar hækkað en aðrar ætla að bíða eftir páska og sjá til hvort öldurnar lægi. Á einni ferðaskrifstofunni höfðu ferðir hækkað um 6,5 prósent og miðað við þessa hækkun hefur 60 þúsund króna ferð til sólarlanda hækkað um 3900 krónur. Fyrir fjögurra manna fjölskyldu hefur ferðin því hækkað um 15.600 krónur.



Lausleg og óvísindaleg könnun á því hvað gengislækkun krónunnar undanfarna daga kostar hinn íslenska ferðamann leiðir í ljós að kostnaðaraukinn er umtalsverður. Í Kaupmannahöfn er ölið nú 63 krónum dýrara en það var um áramót. Karrýréttur á indverskum veitingastað í London er um 550 krónum dýrari, rauðvínsflaskan í París hefur hækkað um tæpar þúsund krónur, iphone farsíminn, sem margir Íslendingar hafa sótt sér vestur um haf, er rúmum 6 þúsund krónum dýrari, hótel í Amsterdam hefur hækkað um 4.500 krónur og hjá íslenskum námsmanni í Berlín hefur leiga á tveggja herbergja íbúð með húsgögnum hækkað um heilar 25 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×