Körfubolti

Kannast ekki við að hafa klikkað fyrir utan

Þorleifur fór hamförum í gærkvöld
Þorleifur fór hamförum í gærkvöld Mynd/Vilheml

Þorleifur Ólafsson hjá Grindavík fór gjörsamlega hamförum í gærkvöldi þegar Grindvíkingar lögðu Þórsara á heimavelli í Iceland Express deildinni. Hann skoraði 34 af 36 stigum sínum í síðari hálfleik.

Grindvíkingar voru á hælunum framan af leik og voru undir 37-50 þegar flautað var til leikhlés. Þorleifur hafði þá skorað aðeins tvö stig og misnotaði nokkur sniðskot í fyrri hálfleiknum.

Fljótlega í þeim síðari hrukku Grindvíkingar í gang og það var ekki síst fyrir stórleik Þorleifs sem þeir gulklæddu innbyrtu sigurinn. Samkvæmt tölfræði KKÍ hitti Þorleifur úr 8 af 9 þriggja stiga skotum sínum í síðari hálfleiknum, en hann kannaðist reyndar ekki við að hafa klikkað á skoti fyrir utan í leiknum.

"Ég kannast nú ekki við að hafa klikkað á þrist í leiknum og bróðir minn sem er með mér í liðinu og fjölskyldan mín sem horfði á leikinn ekki heldur. Þetta var eiginlega alveg fáránlegt - það var alveg sama hvernig ég skaut, það var bara allt ofan í," sagði Þorleifur í samtali við Vísi.

"Þetta er sennilega besta rispa sem ég hef tekið í meistaraflokki, ég man einu sinni eftir því að hafa verið heitur á móti Snæfelli í Höllinni einu sinni, en það var ekkert í líkingu við þetta," sagði Þorleifur.

"Við vorum alveg á fullu þarna í síðari hálfleiknum og vorum að spila vel. Boltinn gekk vel, við vorum að spila vörn og mér leið bara vel og fann vel taktinn. Þetta var tvímælalaust einn af þessum leikjum," sagði Þorleifur um frammistöðu sína í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×