Fjórir leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld og ljóst að þar verður mikil spenna enda eru þetta fyrstu leikirnir í næstsíðustu umferð deildarinnar.
Íslandsmeistarar KR sækja Tindastólsmenn heim á Sauðárkrók, en KR er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig líkt og Keflvíkingar og mega því illa við því að misstíga sig í baráttunni um fyrsta sætið.
Grindvíkingar eru í þriðja sæti deildarinnar og þeir fá Þórsara í heimsókn í kvöld. Þá verður hörkuleikur í Stykkishólmi þar sem Snæfell tekur á móti ÍR og loks fá Fjölnismenn Njarðvíkinga í heimsókn í Grafarvoginn.
Annað kvöld tekur Skallagrímur á móti Keflavík í Borgarnesi og Hamar mætir Stjörnunni í Hveragerði.