Körfubolti

KR minnkaði forskot Keflavíkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.

Forysta Keflavíkur í Iceland Express deild karla er tvö stig eftir leiki kvöldsins. Fimmtán umferðum er lokið í deildinni en fjórir leikir voru á dagskrá í kvöld.

Keflavík hefur 26 stig í toppsætinu en liðið tapaði fyrir Njarðvík í gær. KR er í öðru sæti með 24 stig eftir að hafa unnið Þór Akureyri í kvöld 96-82.

Grindavík er tveimur stigum á eftir KR en liðið vann nauman útisigur á Hamri í kvöld. Leikurinn í Hveragerði endaði 91-93. Hamarsmenn eru með sex stig í neðsta sæti deildarinnar en þar fyrir ofan er Fjölnir með átta.

Nicholas King skoraði 30 stig fyrir Hamar en hjá gestunum skoraði Páll Axel Vilbergsson mest, 33 stig. Jonathan Griffin var með 27 stig.

Tindastóll vann Fjölni í kvöld 96-80 í mikilvægum botnslag á Sauðárkróki. Philip Perre var með 22 stig fyrir Tindastól og Svavar A. Birgisson nítján. Hjá Fjölni var Anthony Drejaj stigahæstur með 28 stig.

Þá endaði leikur Stjörnunnar og Snæfells 94-103.

Hlynur Bæringsson var besti maður vallarins og skoraði 31 stig fyrir Snæfellinga. Auk þess hirti hann tólf fráköst og tók átta stoðsendingar. Justin Shouse skoraði tuttugu stig. Snæfell hafði tveggja stiga forystu í hálfleik.

Hjá Stjörninni var Dimitar Karadzovski stigahæstur með 24 stig og Calvin Roland var með nítján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×