Körfubolti

Njarðvík vann topplið Keflavíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Njarðvíkur fagna sigri.
Leikmenn Njarðvíkur fagna sigri. Víkurfréttir/Jón Björn

Njarðvík vann öruggan sigur á toppliði Keflavíkur í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld, 88-75, í Keflavík í kvöld.

Gestirnir úr Njarðvík náðu fljótt undirtökunum í leiknum og voru með fjórtán stiga forystu í hálfleik, 49-35. Njarðvíkingar skoruðu svo tíu fyrstu stigin í seinni hálfleik þar að auki.

Keflvíkingum tókst þó að minnka muninn í átta stig en staðan var 68-60 þegar fjórði leikhluti hófst.

Njarðvík var hins vegar með örugga forystu út allan leikinn en til marks um það þá skoruðu Keflvíkingar síðustu sjö stigin í leiknum.

Stigahæstir hjá Keflavík voru þeir Bobby Walker með 21 stig og Anthony Susnjara með fjórtán stig.

Damon Bailey skoraði 29 stig fyrir Njarðvík og tók tólf fráköst þar að auki. Brenton Birmingham var með fimmtán stig og Jóhann Árni Ólafsson þrettán auk þess sem hann tók níu fráköst.

Einn annar leikur fór fram í deildinni í kvöld en Skallagrímur vann góðan sigur á ÍR í Borgarnesi, 89-86.

Tveimur leikjum var frestað í kvöld. Annars vegar viðureign KR og Þórs og hins vegar leik Stjörnunnar og Snæfells.

Leikirnir fara báðir fram annað kvöld. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×