Körfubolti

Frábær tilþrif í Keflavík

Ólafur Ólafsson fór á kostum í troðkeppninni eins og sjá mér á þessari mynd
Ólafur Ólafsson fór á kostum í troðkeppninni eins og sjá mér á þessari mynd Mynd/Víkurfréttir/JónBjörn

Í dag fór fram svokallaður stjörnudagur hjá íslenskum körfuboltamönnum í Keflavík þar sem landsliðin tóku á móti úrvalsliðum leikmanna úr Iceland Express deildunum. Þá var haldin troðslukeppni í hálfleik á karlaleiknum.

Úrvalslið Iceland Express deildarinnar vann nokkuð öruggan sigur á íslenska kvennalandsliðinu 100-78, en nokkra sterka leikmenn vantaði reyndar í landsliðið.

Signý Hermannsdóttir skoraði 17 stig og hirti 12 fráköst fyrir íslenska landsliðið og Kristún Sigurjónsdóttir skoraði 15 stig, en Monique Martin var best í úrvalsliðinu með 30 stig og 9 fráköst á aðeins 23 mínútum.

Páll Axel og Hlynur í stuði

Karlaleikurinn var mun meira spennandi og þannig fór að lokum að landsliðið sigraði 137-136 í fjörugum leik þar sem sóknarleikurinn var að sjálfssögðu í fyrirrúmi eins og venja er á svona uppákomum.

Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í íslenska landsliðinu með 28 stig og hitti úr 12 af 15 skotum sínum. Hlynur Bæringsson átti líka frábæran leik með 19 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst og Magnús Þór Gunnarsson skoraði 15 stig.

Cedric Isom var atkvæðamestur hjá Iceland Express liðinu með 29 stig, Jonathan Griffin var með 27 stig og Tommy Johnson skoraði 14 stig.

Rúsinan í pylsuendanum var svo troðkeppnin sem haldin var í hálfleik, en þar var það hinn 17 ára gamli Ólafur Ólafsson frá Grindavík sem sigraði með glæsilegum tilþrifum sem sjá má á myndinni með fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×