Körfubolti

Snæfell lagði Njarðvík

Sigurður Þorvaldsson skoraði 11 stig fyrir Snæfell í sigrinum á Njarðvík í dag
Sigurður Þorvaldsson skoraði 11 stig fyrir Snæfell í sigrinum á Njarðvík í dag Mynd/Vilhelm

Tveir leikir voru á dagskrá í Iceland Express deild karla í körfubolta í dag. Snæfell tók á móti Njarðvík í Stykkishólmi og hafði 74-67 sigur í hörkuleik.

Justin Shouse var stigahæstur hjá heimamönnum með 17 stig, Hlynur Bæringsson skoraði 13 stig og hirti 11 fráköst og Magni Hafsteinsson skoraði 13 stig og hirti 10 fráköst. Damon Bailey skoraði 23 stig og hirti 8 fráköst fyrir Njarðvík, Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 18 stig og Brenton Birmingham var með 15 stig.

Þá vann ÍR sigur á Þór frá Akureyri í Seljaskóla 96-85. Tahirou Sani átti fínan leik í liði ÍR og skoraði 32 stig og hirti 9 fráköst, Sveinbjörn Claessen skoraði 18 stig og Hreggviður Magnússon var með 16 stig og 8 fráköst. Cedric Isom var stigahæstur hjá Þór með 26 stig, Luka Marolt skoraði 14 og Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 13 stig og hirti 9 fráköst.

Keflavík er sem fyrr á toppi deildarinnar með 20 stig, KR hefur 18, Grindavík 16, Njarðvík 14 og Snæfell 12 stig. ÍR og Skallagrímur hafa 10 stig í 6.-7. sætinu og Tindastóll, Stjarnan og Þór berjast um 8. og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina - hafa öll 8 stig. Fjölnir og Hamar eru svo á botninum með sex og fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×