Innlent

Hrossaþjófur felldur með DNA sýni

Óli Tynes skrifar

Þegar Sæunn Oddsdóttir á Steinum í Stafholtstungum lánaði hann Baldur sinn til hestaferðar, átti hún ekki von á öðru en hún fengi hann aftur eftir nokkra daga. Síðan eru liðin þrjú ár.

Sá sem fékk Baldur lánaðan lét nefnilega örmerkja hann, breytti nafninu, laug til um uppruna og seldi hann til Þýskalands.

Þegar Sæunni fór að lengja eftir Baldri fór hún á fund mannsins, sem ekki þóttist finna hestinn í haga sínum. Hann neitaði Sæunni um að leita þar sjálf.

Það sem varð kauða að falli var að sú hrossaætt sem hann hafði gefið upp fyrir hestinn getur ekki gefið af sér bleikálótt afkvæmi, lík Baldri.

Sæunn sagði í samtali við fréttastofuna að hún hefði ekki getað hugsað sér að láta kyrrt liggja. Hún leitaði liðsinnis Bændasamtakanna sem fundu Baldur fljótlega á sínu nýja heimili.

Þýski eigandinn heimilaði að tekið yrði DNA sýni úr hestinum og voru þá komnar óyggjandi sannanir um hrossaþjófnaðinn.

Þá loks gaf þjófurinn sig og í gegnum lögfræðing Sæunnar bætti hann henni Baldur, til þess að sleppa við ákæru.

Sæunni sárnaði þessi framkoma að vonum mjög. Maðurinn hefði gerst sekur um mörg brot. Bæði gagnvart henni sem eiganda og gagnvart Baldri, sem aldrei átti að fara úr landi.

Sæunn sagði að Baldur væri lifandi dýr og henni sárnaði meðferðin á honum miklu meira en ef til dæmis hefði verið stolið frá henni bíl.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×