Innlent

Fjölbreyttur flugdagur framundan - myndband

Óli Tynes skrifar

Flugmálafélag Íslands og fleiri aðilar standa fyrir Flugviku sem lýkur með Flugdegi á Reykjavíkurflugvelli á laugardag.

Í þessari viku hefur verið boðið til margs konar fræðslu- og umræðufunda um flugmál, og hefur þáttaka verið mjög góð. Liður í að kynna þessa Flugviku hefur verið að DC-3 vélinni Páli Sveinssyni hefur verið flogið lágt yfir Reykjavík og nágrenni.

Flugdagurinn á Reykjavíkurflugvelli hefst kl. 12 á hádegi á laugardag og stendur til klukkan fjögur. Á svæði Flugþjónustunnar við Hótel Loftleiðir verða sýndar flugvélar af öllum stærðum og gerðum en á himni verður boðið upp á flugsýningu.

Á meðal þess sem er á dagskrá Flugdagsins er fallhlífarstökk, flugmódelflug, listflug, hópflug, lágflug, þyrluflug, fisflug, paramótorflug og sýningaratriði frá Landhelgisgæslunni.

Þá mun Boeing 757 vél frá Icelandair lenda á Reykjavíkurflugvelli og hún mun einnig fljúga samflug með gömlu DC-3 vélinni.  Þar hittast nútíð og fortíð og verður áhugavert að sjá hvernig flugmennirnir vinna á hraðamuninum sem er á þessum vélum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×