Innlent

Illar hvatir að baki fréttar í Mogganum segir forstjóri Spron

Óli Tynes skrifar

Í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag er því haldið fram að í kjölfar yfirtöku Kaupþings verði allt að 200 starfsmönnum nýju samsteypunnar sagt upp störfum flestum hjá Spron.

Morgunblaðið segir að að mati sérfróðra sé mikil yfirmönnun í höfuðstöðvum Spron. Þar séu um 175 starfsmenn. Líklegt sé að þangað muni fyrstu uppsagnarbréfin berast.

Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron sagði í samtali við fréttastofuna að starfsmenn í höfuðstöðvunum séu ellefu talsins en ekki 175.

Allar aðrar staðhæfingar Morgunblaðsins séu álíka réttar. Það sé einfaldlega ekki heil brú í þessari frétt.

Guðmundur velti fyrir sér hvert væri markmiðið með svona skrifum. Hvorki hafi verið talað við sig né Kaupþing. Byggt sé á sögusögnum ónafngreindra aðila sem í öllum tilfellum fari með rangt mál.

Guðmundur spyr hvort blað sem svona fari fram geti kallað sig sómakært dagblað. Þarna séu illar hvatir að baki.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×