Sport

Ísland áfram í A-deild eftir sigur á Finnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Íslenska badmintonlandsliðið.
Íslenska badmintonlandsliðið.

Ísland og Finnland mættust í dag í úrslitaleik um áframhaldandi veru í A-deild Evrópumótsins í badminton. Leikið var í Danmörku en Ísland vann sigur í spennandi einvígi 3-2 og heldur því sæti sínu í A-deildinni.

Ragna Ingólfsdóttir og Helgi Jóhannesson unnu sigur í tvenndarleik en Ísland tapaði síðan báðum viðureignum sínum í einliðaleik. Bjarki Stefánsson tapaði fyrir Ville Lang 10-21 og 3-21 og Tinna Helgadóttir tapaði fyrir Anu Nieminen. Tinna vann fyrstu lotuna 21-18 en tapaði næstu tveimur, 8-21 og 17-21.

Ísland náði að jafna muninn í 2-2 með sigri í tvíliðaleik karla. Magnús Helgason og Helgi Jóhannesson unnu þá Ilkka Nyqvist og Ville Lang. Þeir unnu fyrstu lotu 21-18, töpuðu svo 16-21 en unnu síðustu lotu 21-13.

Það var því ljóst að úrslit myndu ráðast í tvíliðaleik kvenna þar sem Sara Jónsdóttir og Ragna Ingólfsdóttir voru í eldlínunni. Mótherjarnir voru Elina Vaisanen og Saara Hynninen. Íslensku stelpurnar unnu 21-10 í fyrstu lotu og unnu síðan aðra lotu 21-11.

Með sigri í tvíliðaleik kvenna tryggði íslenska landsliðið sér sigur á Finnum 3-2. Ísland hafnaði í 13. sæti og náði því að halda sæti sínu í A-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×