Íslenski boltinn

Katrín: Lærðum mikið af fyrri leiknum

Elvar Geir Magnússon skrifar

Íslenska kvennalandsliðið æfði í kvöld á Laugardalsvelli fyrir leikinn gegn Slóveníu á laugardag. Þetta var fyrsta skrefið í undirbúningi fyrir þennan mikilvæga leik en stefnt er að því að fylla Laugardalsvöllinn.

„Það hefur verið mikil tilhlökkun og langur undirbúningur og aðdragandi að þessum leik. Þetta verður mjög erfiður leikur," sagði Katrín Jónsdóttir í viðtali á vefsíðu KSÍ.

Eini tapleikur íslenska liðsins í undankeppni Evrópumótsins kom í útileiknum gegn Slóveníu. „Við vorum meira með boltann í þeim leik en töpuðum. Við lærðum ótrúlega mikið af þeim leik. Þegar maður horfir til baka vorum við kannski ekki nægilega vel undirbúnar þá," sagði Katrín.

Stefnt er að því að fylla Laugardalsvöllinn. „Það væri frábært ef það yrði uppselt á leikinn og ég vill hvetja fólk til að mæta," sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×