Sport

Ekki loku fyrir það skotið að Bjarni lýsi leik á EM

Hrafnkell Kristjánsson
Hrafnkell Kristjánsson mynd/pjetur

Undirskriftalistinn sem fór í loftið á bloggsíðu Henrys Birgis Gunnarssonar í gær hefur vakið mikla athygli og þegar þetta er ritað hafa yfir 800 manns skorað á Rúv að fá Bjarna Felixson til að lýsa leikjum á EM í knattspyrnu í sumar.

Vísir sló á þráðinn til Hrafnkels Kristjánssonar, yfirmanns íþróttadeildar Rúv, og leitaði viðbragða hans við undirskriftalistanum.

Hrafnkell benti á að ekki hefði verið alveg rétt haft eftir honum í 24 stundum í gær þar sem sagði að Hrafnkell ætlaði að skoða það að hleypa Bjarna í loftið ef hann fengi í hendur undirskriftalista því til stuðnings.

"Málið er bara það að það hefur aldrei verið loku fyrir það skotið að Bjarni tæki einn leik eða svo, því það er ekki búið að raða mönnum niður á leikina. Það hefur hinsvegar aldrei verið uppi á borðum hjá okkur, hvorki áður, né eftir að þessi undirskriftalisti fór í loftið. Bjarni er með ákveðið hlutverk hjá Rúv og það er í útvarpinu og á netinu," sagði Hrafnkell og benti á að starfsvettvangur Bjarna væri ekki í sjónvarpinu.

Hrafnkell sagði að sér þætti þó vænt um að sjá að Bjarni nyti stuðnings eins og sjá mátti á bloggsíðu Henrys Birgis, blaðamanns á Fréttablaðinu.

"Okkur þykir vænt um að sjá að Bjarni njóti stuðnings og að fólk hafi gaman af því sem hann hefur fram að færa, rétt eins og okkur hér innanhúss," sagð Hrafnkell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×