Fótbolti

Annað hvort Diarra eða Huntelaar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klaas-Jan Huntelaar.
Klaas-Jan Huntelaar. Nordic Photos / Getty Images

Knattspyrnusamband Evrópu hefur staðfest að Real Madrid neyðist til að velja á milli Lassana Diarra og Klaas-Jan Huntelaar þegar kemur að því að velja leikmannahópinn fyrir 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni.

Báðir ganga þeir formlega til liðs við Real Madrid í næsta mánuði en þeir hafa þegar spilað í Evrópukeppni á þessari leiktíð - Diarra með Portsmouth og Huntelaar með Ajax.

Samkvæmt reglum UEFA má aðeins bæta einum slíkum leikmanni við hópinn á miðju tímabili. Ramon Calderon, forseti Real Madrid, sagðist vonast til þess að Real Madrid gæti beygt reglurnar til að fá leikheimild fyrir báða leikmenn.

„Ef gera ætti undantekningu á reglunum fyrir Real Madrid myndi koma af stað endalausum beiðnum um slíkar undantekningar," sagði talsmaður UEFA.

Þó er ekki útilokað að gera breytingar á þessum lögum en það yrði þá að bíða til loka tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×