Hljóðfráar rússneskar kjarnorkusprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev 160 Blackjack hafa tvisvar flogið inn á íslenska varnarsvæðið að undanförnu, síðast í gær.
Bandarískar orrustuþotur frá Keflavíkurflugvelli fóru til móts við þær, ásamt orrustuþotum frá Noregi og Bretlandi. Litið er á þetta sem þrep uppávið í hernaðarumsvifum á Norðurslóðum.
Ellisif Tinna Víðisdóttir forstöðumaður Varnarmálastofnunar staðfesti í samtali við Vísi að tvær Blackjack vélar hefðu flogið um íslenska varnarsvæðið austur af Íslandi í gær. Með þeim voru tvær minni fylgdarflugvélar.
Norskar og Breskar orrustuþotur hefðu verið sendar til móts við þær og svo bandarískar orrustuþotur sem nú eru staðsettar á Keflavíkurflugvelli.
Ellisif Tinna sagði að rússnesku vélarnar hefðu tekið stefnuna í suðvestur og bandarísku þoturnar fylgt þeim út af varnarsvæðinu.
Rússnesku þoturnar reyndust vera á leið til Venesúela, þar sem þær eru nú lentar Hugo Chaves forseta til mikillar ánægju.
Bandaríkjamenn eru ekki eins ánægðir því þetta er í fyrsta skipti sem rússneskar sprengjuflugvélar lenda í Vesturheimi síðan í kalda stríðinu.
Rússar hafa tilkynnt að þeir muni senda flotadeild og langdrægar sprengjuflugvélar til Venesúela í nóvember til sameiginlegra heræfinga.
Það er gríðarleg ögrun við Bandaríkin að Rússar skuli vera með heræfingar nánast í þeirra bakgarði.
Íslensk varnarmálayfirvöld munu verða verulega vör við þessar heræfingar þegar þar að kemur. Bæði rússneska flotadeildin og flugvélarnar munu fara framhjá Íslandi.
Sjá myndir af Blackjack hér