Barcelona hefur samið til fjögurra ára við Seydou Keita sem félagið keypti frá Sevilla fyrir fjórtán milljónir evra.
Frá þessu var greint fyrir helgi en hefur nú verið staðfest. Keita gæti komið í stað Deco sem er talinn vera á leið frá félaginu.
Keita var orðaður við mörg önnur stórlið í Evrópu en er ánægður með að hafa farið til Barcelona.
„Ég fékk tilboð frá mörgum öðrum félögum en ég hef verið hrifinn af Barca í langan tíma. Ég er ekki mikið fyrir að tjá mig utan vallar en ég vona að ég nái að leggja mitt af mörkum hjá Barcelona rétt eins og ég gerði hjá Sevilla."