Hvar eru peningarnir? Óli Kristján Ármannsson skrifar 15. júní 2008 00:01 Stundum er haft á orði að sókn sé besta vörnin. Spurning er hvort Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur haft þá speki í huga þegar hann sakaði fréttamann Markaðarins, sem vatt sér að honum með spurningu á tröppum Stjórnarráðsins á föstudag, um dónalega hegðan og lét eins og ráðamenn þjóðarinnar þyrftu ekki að svara spurningum nema að undangenginni tímapöntun. Þeir sem á horfðu sáu að tilraun fréttamannsins til að ná tali af ráðherranum gat tæpast talist dónaleg, þótt kumpánleg væri. „Jæja, hvar eru peningarnir sem eiga að komast inn í landið?" spurði hann um leið og ráðherra kom hlaupandi upp tröppur Stjórnarráðsins. Tilsvör ráðherrans voru hins vegar heldur klaufaleg og erfitt að átta sig á hvort hann talaði í gamni eða alvöru. Nú getur verið að innandyra hafi beðið svo brýn verkefni að forsætisráðherra hafi ekki átt aflögu tvær mínútur til að svara spurningum, en hann hefði þá mátt segja það. Skilaboðin voru óljós. Á tímum sem þessum, þegar fjárfestar halda að sér höndum, verð hlutabréfa lækkar og krónan veikist, eru óljós skilaboð allra síst það sem koma á frá stjórnvöldum. Í viðtali við Útvarpið í hádeginu á föstudag áréttaði Geir að efnahagsmálin væri ótrygg. „Og ríkisstjórnin er auðvitað upp á dag hvern að vinna í því hvernig hægt sé að bregðast við ástandinu," sagði hann, en til þess að efla hér traust á efnahagslífinu þyrfti aðgerðaáætlunin að koma fram með skýrari hætti. Svokallað skuldatryggingarálag á skuldabréfaútgáfu bæði banka og ríkis náði sögulegum hæðum í mars og var rakið til árása vogunarsjóða á íslenska hagkerfið. Heldur rofaði svo til eftir að hér var boðuð sérstök skoðun á aðkomu þessara sjóða og í byrjun maí kom svo að því að Seðlabankinn kynnti samninga um lánalínur við norræna seðlabanka. Slíkir samningar jafngilda styrkingu gjaldeyrisforða landsins, en án þess að lántökukostnaður fylgi. Undir lok síðasta mánaðar samþykkti Alþingi svo heimild til frekari lántöku ríkisins til styrktar gjaldeyrisforðanum. Örlítillar bjartsýni varð vart á mörkuðum í kjölfarið og krónan styrktist lítillega, um leið og álag á skuldatryggingar lækkaði. Nú hefur syrt í álinn á ný og sú spurning vaknar hvort ríkið hafi misst af lestinni í að festa sér lán til styrktar gjaldeyrisforðanum, þegar aðeins rofaði til á mörkuðum eftir fyrri yfirlýsingar. Lánakjör þau sem bæði ríkinu og bönkunum bjóðast á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum hafa versnað á ný og krónan er nú ámóta veik og þegar verst hefur látið á þessu ári. Nokkra daga í mars og aftur í maí fór vísitala í 157 og 158 stig, en núna er gengi hennar rétt undir 157 stigunum. Það þýðir að Bandaríkjadalur kostar rétt tæpar 80 krónur og evran rúmar 122. Íslenskir bankar búa við vantraust á erlendum fjármálamörkuðum vegna efasemda um burði ríkisins til að standa að baki þeim. Efling gjaldeyrisforðans er nauðsynleg til að hrekja þær efasemdaraddir, auk þess sem Seðlabankinn hefði þá tiltækan gjaldeyri til að lána áfram og koma í gang á ný hálflömuðum gjaldeyrisskiptamarkaði, sem síðustu vikur hefur lítið stutt við gengi krónunnar. Því ætti ekki að koma ráðamönnum á óvart að vera inntir eftir því „hvar peningarnir séu" og eðlilegra að þeir hefðu svör á reiðum höndum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Biðin eftir leigubíl Elín Anna Gísladóttir Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun
Stundum er haft á orði að sókn sé besta vörnin. Spurning er hvort Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur haft þá speki í huga þegar hann sakaði fréttamann Markaðarins, sem vatt sér að honum með spurningu á tröppum Stjórnarráðsins á föstudag, um dónalega hegðan og lét eins og ráðamenn þjóðarinnar þyrftu ekki að svara spurningum nema að undangenginni tímapöntun. Þeir sem á horfðu sáu að tilraun fréttamannsins til að ná tali af ráðherranum gat tæpast talist dónaleg, þótt kumpánleg væri. „Jæja, hvar eru peningarnir sem eiga að komast inn í landið?" spurði hann um leið og ráðherra kom hlaupandi upp tröppur Stjórnarráðsins. Tilsvör ráðherrans voru hins vegar heldur klaufaleg og erfitt að átta sig á hvort hann talaði í gamni eða alvöru. Nú getur verið að innandyra hafi beðið svo brýn verkefni að forsætisráðherra hafi ekki átt aflögu tvær mínútur til að svara spurningum, en hann hefði þá mátt segja það. Skilaboðin voru óljós. Á tímum sem þessum, þegar fjárfestar halda að sér höndum, verð hlutabréfa lækkar og krónan veikist, eru óljós skilaboð allra síst það sem koma á frá stjórnvöldum. Í viðtali við Útvarpið í hádeginu á föstudag áréttaði Geir að efnahagsmálin væri ótrygg. „Og ríkisstjórnin er auðvitað upp á dag hvern að vinna í því hvernig hægt sé að bregðast við ástandinu," sagði hann, en til þess að efla hér traust á efnahagslífinu þyrfti aðgerðaáætlunin að koma fram með skýrari hætti. Svokallað skuldatryggingarálag á skuldabréfaútgáfu bæði banka og ríkis náði sögulegum hæðum í mars og var rakið til árása vogunarsjóða á íslenska hagkerfið. Heldur rofaði svo til eftir að hér var boðuð sérstök skoðun á aðkomu þessara sjóða og í byrjun maí kom svo að því að Seðlabankinn kynnti samninga um lánalínur við norræna seðlabanka. Slíkir samningar jafngilda styrkingu gjaldeyrisforða landsins, en án þess að lántökukostnaður fylgi. Undir lok síðasta mánaðar samþykkti Alþingi svo heimild til frekari lántöku ríkisins til styrktar gjaldeyrisforðanum. Örlítillar bjartsýni varð vart á mörkuðum í kjölfarið og krónan styrktist lítillega, um leið og álag á skuldatryggingar lækkaði. Nú hefur syrt í álinn á ný og sú spurning vaknar hvort ríkið hafi misst af lestinni í að festa sér lán til styrktar gjaldeyrisforðanum, þegar aðeins rofaði til á mörkuðum eftir fyrri yfirlýsingar. Lánakjör þau sem bæði ríkinu og bönkunum bjóðast á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum hafa versnað á ný og krónan er nú ámóta veik og þegar verst hefur látið á þessu ári. Nokkra daga í mars og aftur í maí fór vísitala í 157 og 158 stig, en núna er gengi hennar rétt undir 157 stigunum. Það þýðir að Bandaríkjadalur kostar rétt tæpar 80 krónur og evran rúmar 122. Íslenskir bankar búa við vantraust á erlendum fjármálamörkuðum vegna efasemda um burði ríkisins til að standa að baki þeim. Efling gjaldeyrisforðans er nauðsynleg til að hrekja þær efasemdaraddir, auk þess sem Seðlabankinn hefði þá tiltækan gjaldeyri til að lána áfram og koma í gang á ný hálflömuðum gjaldeyrisskiptamarkaði, sem síðustu vikur hefur lítið stutt við gengi krónunnar. Því ætti ekki að koma ráðamönnum á óvart að vera inntir eftir því „hvar peningarnir séu" og eðlilegra að þeir hefðu svör á reiðum höndum.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hvernig reiddi kosningakerfinu af í nýliðnum alþingiskosningum?" Þorkell Helgason,Kristján Jónasson Skoðun