Innlent

Alþjóðleg verðlaun fyrir vísindarannsóknir

Friðbert Jónasson, prófessor í augnlækningum við Háskóla Íslands og yfirlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús, hlaut í dag árleg verðlaun Heimssamtaka um augnsjúkdóminn gláku.

Hæg þróun gláku leiðir til algjörrar blindu sé meðhöndlun ekki hafin í tíma. Gláka einkennist af hækkuðum augnþrýstingi sem veldur dauða taugafrumnanna í sjóntauginni.

Þetta leiðir til þess að sjónsviðið skerðist og seinna meir blinda ef ekkert er aðhafst. Allir geta fengið gláku en sumir eru í meiri hættu en aðrir.

Hætta á gláku eykst með aldrinum og þó sérstaklega eftir 60 ára aldur. Gláka er einnig að einhverju leyti ættgeng og þeir sem eiga nána ættingja með gláku eru í meiri hættu en aðrir.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að verðlaunin sem Friðbert hlýtur njóti mikillar virðingar innan vísindasamfélagsins. Þau voru veitt í Berlín í dag á ársfundi Evrópsku Glákusamtakanna. Þetta eru vegleg verðlaun upp á 25.000 Bandaríkjadali og mikill heiður fyrir Íslendinga, Friðbert sjálfan, Háskóla Íslands og íslenskt vísindasamfélag.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×