Bakþankar

Rauða hættan

Karen Dröfn Kjartansdóttir skrifar
Okkur Íslendingum þykir ægilega vænt um nágranna okkar í Færeyjum, enda eru þeir okkar eina tækifæri til að sýna stóra bróðurs stæla í garð annarra þjóða. Þó eru margir Íslendingar sárir út í þá þessa dagana. Ungur Íslendingur sem bjó þar í landi flæktist í fíkninefnasmygl. Eftir rúmlega 170 daga í einangrun var hann dæmdur í sjö ára fangelsis auk ævilangrar brottvísunar frá Færeyjum sem hann lítur þó á sem heimaland sitt.

Sumum finnst þessi dómur of þungur, til dæmis Sigurði Líndal lagaprófessor og Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni, sem sagði færeyskt réttarkerfi vera gamaldags og þar í landi hefði fólk oftrú á refsingum. Því er Egill Helgason sjónvarpsmaður sammála en hann ritaði á síðu sína stuttan pistil undir titlinum Refsiglöð frændþjóð. Þar segir hann að í Færeyjum ríki að sumu leyti gamaldags ofsatrú í viðhorfum. Hinn talibanski dómur yfir Íslendingnum sé til marks um það sem og hið langa varðhald sem hann var látinn sæta, að mestu leyti í einangrun. Þá vísar hann einnig til þess að fordómar gagnvart samkynhneigðum sem viðgangist þar í landi og bendir á áhugaverða grein um þann færeyska vanda sem birtist á síðu Samtakana 78.

Við þessum viðhorfum brugðust margir reiðir við. Á stuttum bloggrúnti sá ég að algengustu rök þeirra sem þótti dómurinn og meðferðin á Íslendingnum hin prýðilegasta voru þau að þessi maður hafi ætlað að selja „börnunum okkar" dóp, svona jafnvel þótt hann hefði ekki verið fundinn sekur fyrir slíkt og ég hafi ekki hugmynd um hver hafi gefið leyfi til að alhæfa um mitt barn. Allra skemmtilegastu rökin um gæði færeysku þjóðarinnar sá ég þó í athugsemdakerfi Egils en þau voru svohljóðandi: „Í grein hjá samtökum 78 er ýjað að því að það sé nánast löglegt að vera með hótanir og ofsóknir á samkynhneigða það er rangt, ofsóknir og hótanir eru bannaðar í Færeyjum jafnvel þó að þú sért rauðhærður."

Jafnvel þó að þú sért rauðhærður! Nei, verður ekki að draga mörkin einhvers staðar? Rauðhausar eru agalega varhugavert fólk, það sýnir reynslan sem og bíómyndir á borð við Rauðhærðu afturgönguna og rauðbirkna hrekkjusvínið í Pappírs-Pésa. Það að Færeyjar skulu vera orðnar griðland rauðhærðra er tvímælalaust til marks um hrekklausa þjóð sem flýtur sofandi að feigðarósi. Skyldi engin gera grín af þeim fyrir refsigleði, ofsakennda guðstrú og hómófóbíu meðan rautt hár fær að spretta þar óhindrað.





×