Innlent

Áfram vakt á skjálftasvæðinu

Rauði krossinn verður með vakt í Hveragerði og á Selfossi eftir lokun þjónustumiðstöðva í kvöld, sunnudag.

Fólki er einnig bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að leita sér upplýsinga og aðstoðar. Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn og er gjaldfrjáls.

Í Hveragerði verða sjálfboðaliðar við í húsnæði Rauða krossins í Austurmörk frá klukkan 19:00 í kvöld til miðnættis. Þá verða sjálfboðaliðar á vakt á Selfossi í húsnæði Rauða krossins að Eyrarvegi 23 frá klukkan 19:00 til miðnættis.

Áfallahjálparteymi Rauða krossins verður að störfum í þjónustumiðstöðvunum á Selfossi og í Hveragerði næstu daga frá klukkan 17:00 til 20:00.

Borgarafundir verða haldnir í dag í Sunnulækjarskóla á Selfossi klukkan 17:00 og í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka klukkan 20:30.

Íbúar eru hvattir til að sækja fundina en þar verða fyrir svörum fulltrúar Rauða krossins, sveitarfélagins, almannavarna, lögreglu, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, heilbrigðisþjónustu og Viðlagatryggingar Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×