Innlent

Gamli og nýi tíminn í lágflugi yfir Reykjavík

Boeing 757 vél Icelandair.
Boeing 757 vél Icelandair.

Í tilefni Flugdaga sem nú standa yfir mun Boeing 757 farþegaþota Icelandair fljúga lágflug yfir Reykjavík um kl. 15:30 í dag.

Vélin er á heimleið frá Osló og mun hún koma inn yfir borgina frá Elliðavatni í austri, og fljúga í sveig yfir miðborgina áður en hún heldur til lendingar í Keflavík.

Skýjahæð er hagstæð til þessa í augnablikinu en ef hún lækkar mikið frá því sem nú er, er hugsanlegt að þessari áætlun verði breytt og mun flugstjóri vélarinnar meta það þegar vélin nálgast höfuðborgina upp úr þrjú í dag.

Þá flýgur Þristavinafélagið nokkur útsýnisflug yfir borginni á bilinu 18.30 til 19.00 í kvöld á DC-3 vélinni Páli Sveinssyni.

Þristurinn var skírður Páll Sveinsson í höfuðið á fyrrverandi landgræðslustjóra, en hann var mikill áhugamaður um notkun flugvéla við landgræðslustörf.

Með tilkomu þessarar flugvélar margfaldaðist afkastageta Landgræðslunnar því Páll Sveinsson getur borið 4 tonn af áburði í hverri ferð.

Gamla landgræðsluvélin er án efa sú flugvél sem gert hefur mest í þágu landgræðslu á Íslandi.

Á þeim þrjátíu árum sem Páll Sveinsson var í notkun Landgræðslunnar dreifði vélin um 35,000 tonnum af fræjum og áburði í nærri níuþúsund flugferðum.

Páll Sveinsson er ekki lengur í notkun Landgræðslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×