Innlent

Ísland með í friðarviðræðum

Guðjón Helgason skrifar

Ísland gæti orðið viðræðuvettvangur deilenda fyrir botni Miðjarðarhafs. Þetta er niðurstaða fundar utanríkisráðherra með Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínumanna í dag. Íslendingar hafa skipað sérstakan sendifulltrúa gagnvart Palestínumönnum.

Abbas kom til Íslands í gærkvöldi. Í morgun fór hann til fundar við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, á Bessastöðum.

Á blaðamannfundi ræddi Abbas aðkomu smáríkja að friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs og fundi Jimmy Carters, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, með leiðtogum Hamas.

„Carter hefur, líkt og allir aðrir sem hafa fundað með leiðtogum Hamas, gefið þeim rétt ráð. Hann báð þá um að samþykkja tveggja ríkja lausnina og samkomulagið sem PLO og ríkisstjórn Ísraels hefðu undirritað," sagði Abbas. „Því miður hlustuðu þeir ekki á þessi ráð eins og ég hefði vonað. Þess vegna var niðurstaða heimsóknar Carters, fyrrverandi forseta, ekki sú sem við áttum von á."

Síðdegis átti Abbas fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Þórður Ægir Óskarsson var þá kynntur sem sérlegur sendifulltrúi Íslands gagnvart Palestínu, ígildi sendiherra.

„Þetta er fremur mikilvæg ákvörðun og við metum hana mikils einfaldlega vegna þess að hún endurspeglar ekki einunings þrá Íslendinga eftir friði mili Palestínumanna og Ísraela heldur áhuga alþjóðasamfélagsins á að ná friðarsamkomulagi."

Á fundinum í Ráðherrabústaðnum var einnig ræddur möguleikinn á að ísraelskir og palestínskir þingmenn gætu notað Ísland sem fundarstað í friðarviðræðum í framtíðinni.

„Það var ákveðið á þessum fundi með Abbas forseta að við myndum beita okkur fyrir þessu," sagði utanríkisráðherra. „Og nú er bara að fara að vinna í því."

Þórður Ægir segist nú byrja að undirbúa slíka fundi sem verði spennandi verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×