Lífið

Gissur Sigurðsson gleðigjafi Bylgjunnar

Óli Tynes skrifar

Það er bara einn Gissur Sigurðsson. Og það er kannski eins gott því það er ekki pláss fyrir fleiri slíka í svona litlu landi. Auk þess að flytja fréttir á Stöð 2 og Bylgjunni mætir Gissur á morgnana í þáttinn Býtið til þeirra Heimis Karlssonar og Kolbrúnar Björnsdóttur.

Býtið er fréttatengdur þáttur, en ekki eins formlegur og fréttatímar ljósvakamiðlanna. Þar er gjarnan talað á léttum nótum. Og fáum er betur gefið að tala á léttum nótum en Gissuri Sigurðssyni. Hinn nýútskrifaði skipstjóri fer þar á kostum.

Það kom því ekki á óvart að hlustendur Bylgjunnar skyldu kjósa hann gleðigjafa. Og það voru engir pappakassar sem hann atti þar kappi við. Í undanúrslitunum voru Pétur Jóhann Sigfússon og Jón Gnarr úr Næturviktinni Ilmur Kristjánsdóttir úr Stelpunum og sjálf goðsögnin Laddi.

Þegar hringt var í Gissur í beinni útsendingu og honum tilkynnt um úrslitin varð svo löng þögn að þau Heimir og Kolbrún héldu að hann hefði dottið af línunni. Svo heyrðist loks hin ráma traustvekjandi rödd; "Eru þau orðin vitlaus."

Við þann vin sinn sem þetta skrifar sagði Gissur, eftir að hann hafði jafnað sig, að þetta þætti honum vænna um en nokkra aðra viðurkenningu sem hann hefði fengið.

Smelltu hér til að heyra viðtalið við Gissur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×