Örn Arnarson komst í undanúrslit í 100 metra baksundi á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Debrecen í Ungverjalandi.
Örn náði sjötta besta tíma undanrásanna og stendur því vel að vígi fyrir undanúrslitin sem fara fram síðar í dag. Útsending Eurosport frá mótinu hefst klukkan 14.45 í dag.
Hann náði frábæru viðbragði og var með forystuna eftir startið. Millitími hans var 25,49 sekúndur en hann var þá í öðrum sæti í sínum riðli, þeim þriðja af fimm í röðinni.
Örn náði svo þriðja sæti í riðlinum er hann synti á 52,75 sekúndum sem er bæting á árangri hans frá Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug í síðasta mánuði en rúmri sekúndu frá fjögurra ára gömlu Íslandsmeti hans.
Hann keppir svo í 50 metra flugsundi á morgun, á lokadegi mótsins í Ungverjalandi.