Körfubolti

Tölfræðin úr leikjum gærkvöldsins

Páll Kristinsson og Hlynur Bæringsson berjast um boltann í Grindavík í gærkvöldi
Páll Kristinsson og Hlynur Bæringsson berjast um boltann í Grindavík í gærkvöldi Mynd/Víkurfréttir

Fjórir leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Hér fyrir neðan gefur að líta atkvæðamestu menn kvöldsins.

Aðalleikur kvöldsins fór fram í Grindavík þar sem Snæfell vann góðan sigur á heimamönnum 95-82. Hlynur Bæringsson átti skínandi leik hjá gestunum og skoraði 27 stig og hirti 14 fráköst auk þess að hitta úr 11 af 13 skotum sínum utan af velli. Sigurður Þorvaldsson skoraði 23 stig og hirti 9 fráköst og Justin Shouse skoraði 23 stig og gaf 7 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Þorleifur Ólafsson stigahæstur með 21 stig og Jonathan Griffin skoraði 17 stig.

KR vann nauman sigur á Hamri í Hveragerði 91-90 þar sem Andrew Fogel og Brynjar Björnsson voru stigahæstir í jöfnu liði gestanna með 18 stig, Joshua Helm skoraði 16 og Jovan Zdravevski skoraði 14 stig. George Byrd fór mikinn í liði heimamanna með 38 stig og 17 fráköst.

Skallagrímur skellti Njarðvík í Borgarnesi 90-82. Milojica Zekovic skoraði 27 stig fyrir Skallagrím, Allan Fall 23 stig og Darrell Flake skoraði 20 stig og hirti 18 fráköst, en Brenton Birmingham var atkvæðamestur í liði gestanna með 20 stig. Skallagrímur vann baráttuna um fráköstin 39-26 og hitti mun betur úr skotum sínum.

Loks vann ÍR góðan sigur á Stjörnunni 97-82. Hreggviður Magnússon skoraði 31 stig fyrir ÍR og Sveinbjörn Claessen skoraði 25 stig, en Dimitar Karadzovski skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×