Körfubolti

Sigurður: Liðsheildin hefur verið frábær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigmundur Herbertsson, besti dómarinn, Sigurður Ingimundarson og Bobby Walker.
Sigmundur Herbertsson, besti dómarinn, Sigurður Ingimundarson og Bobby Walker. Mynd/E. Stefán

Sigurður Ingimundarson var í dag útnefndur besti þjálfari Iceland Express deildar karla fyrir fyrstu átta umferðirnar.

Undir hans stjórn hefur Keflavík unnið allar átta viðureignir sínar til þessa í deildinni. Tveir leikmenn Keflavíkur, Bobby Walker og Jón Nordal Hafsteinsson, voru valdir í úrvalslið umferðanna auk þess sem Walker var valinn besti leikmaðurinn.

„Þessir strákar hafa verið að spila mjög vel eins og allir aðrir í liðinu. Það er það skemmtilega við gengi liðsins hvað liðsheildin hefur verið sterk. Það er enginn að reyna að skara fram úr. Bæði Jón og Bobby gera marga litla hluti mjög vel en það er fyrst og fremst liðsheildin hjá Keflavík sem hefur skilað þessum árangri."

Oft hefur verið rætt um heppni og óheppni þegar kemur að því að velja bandarískan leikmann en Sigurður blæs á slíkar umræður. „Þetta eru bara leikmenn sem eru partur af liðinu. Bobby hefur fallið vel inn í liðið, spilar til að vinna leikina en ekki endilega til að vera besti maður vallarins. Hann er nú að spila í fyrsta sinn sem atvinnumaður og hann hefur lagt gríðarlega mikið á sig. Hann ætlar sér mjög langt og ég efa ekki að honum takist það."

Hann varar þó við of mikilli bjartsýni enda er mikið eftir af tímabilinu. „Við erum mjög afslappaðir og tökum einn leik fyrir einu. En það er alveg ljóst að við ætlum að gera meira en bara berjast um titlana."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×