Innlent

Ekkert gert nema Aron Pálmi kvarti formlega

Óli Tynes skrifar
Aron Pálmi í útgáfuteiti bókar sinnar um fangelsisárin í Bandaríkjunum.
Aron Pálmi í útgáfuteiti bókar sinnar um fangelsisárin í Bandaríkjunum. Mynd/ Arnþór.

Bandaríska sendiráðið segir að engin formleg kvörtun hafi borist frá Aroni Pálma Ágústssyni yfir framkomu starfsmanns sendiráðsins við sig. Af sendiráðsins hálfu verði ekkert gert nema slík kvörtun berist.

Aron Pálmi sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að Arnar B. Sigurðsson, starfsmaður Bandaríska sendiráðsins hefði komið að máli við sig í miðbæ Reykjavíkur. Hann hafi rétt sér nafnspjald sitt og sagt sér að hann hefði það hlutverk að fylgjast með ferðum hans.

Aron Pálmi sagði ennfremur að Arnar B. Sigurðsson hefði hótað því að ef hann léti sjá sig í sendiráðinu, myndi hann, Arnar, láta handtaka hann. Upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðsins fullyrti í gær að sendiráðið hefði ekkert eftirlit með Aroni Pálma, né öðrum einstaklingum á Íslandi.

Aron Pálmi sagði að hann hefði kvartað yfir þessu símleiðis, bæði við bandaríska sendiráðið og íslenska utanríkisráðuneytið.

Vísir hafði samband við sendiráðið í dag og spurði hvert yrði framhald þessa máls. Robert C. Dominic varð fyrir svörum. Hann sagði að engin rannsókn hefði farið fram á þessu í sendiráðinu.

Engin formleg kvörtun hefði borist frá Aroni Pálma, og meðan svo væri yrði ekkert framhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×