Körfubolti

Tók Celtics fram yfir Keflavík

Sigurður Ingimundarson er harður stuðningsmaður Boston Celtics
Sigurður Ingimundarson er harður stuðningsmaður Boston Celtics Mynd/Hörður

Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var ekki með sínum mönnum í sigrinum á Stjörnunni í kvöld þar sem hann er í Bandaríkjunum að fylgjast með Boston Celtics. Jón Norðdal Hafsteinsson var nokkuð sáttur við leik sinna manna í Keflavík í fjarveru þjálfarans.

"Við vorum staðráðnir í að mæta ákveðnir til leiks gegn Stjörnunni því þetta lið er búið að vinna Njarðvík og tapa naumlega fyrir KR. Þeir vildu auðvitað vinna okkur af því við erum á toppnum svo við ákváðum að koma grimmir til leiks. Menn verða að mæta tilbúnir til leiks á móti okkur. Við vorum svosem ekkert að spila okkar besta leik en þetta hafðist," sagði Jón og bætti við að það væri góð stemming í liði Keflavíkur í vetur.

"Kanarnir okkar eru að virka mjög vel og eru alltaf að slípast meira inn í hópinn. Við erum auðvitað ekki að spila í Evrópukeppninni núna þannig að ég er ekki frá því að við séum bara ferskari núna. Við eigum mikið inni og þetta lítur bara vel út hjá okkur í vetur. Þetta er frábær hópur."

Það vakti athygli að Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga var ekki á sínum stað á bekknum hjá liðinu í kvöld. "Siggi er í Boston núna með Guðjóni Skúlasyni, Hrannari Hólm og nokkrum góðum mönnum. Þeir ákváðu að skella sér á NBA leik og sáu Boston spila í gærkvöldi og ætla svo að ná öðrum leik áður en þeir koma heim," sagði Jón.

"Það snýst allt um Boston hjá þeim og menn eru ekki menn með mönnum nema þeir haldi með Boston Celtics," sagði Jón léttur í bragði, en Boston-liðið er enn ósigrað í NBA deildinni rétt eins og Keflavíkurliðið í Iceland Express deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×