Fótbolti

Liðin verða hrædd við okkur eftir þetta

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez segir að 8-0 sigur lærisveina hans á Besiktas í Meistaradeildinni í gærkvöld muni gera það að verkum að mótherjar Liverpool eigi eftir að óttast þá í framtíðinni. Liverpool þarf að vinna tvo síðustu leiki sína í riðlinum til að fara áfram í keppninni.

"Porto þarf að koma á Anfield í næstu umferð og þeir eiga eftir að hafa áhyggjur af því eftir þennan sigur okkar í gær, rétt eins og aðrir mótherjar okkar. Það breytir því ekki að við þurfum að vinna tvo síðustu leikina okkar til að fara áfram - alveg sama hvað við skorum mörg mörk," sagði Benitez og bætti við að mörkin eigi eftir að hlaða framlínumenn sína sjálfstrausti.

Þjálfari Besiktas var eðlilega ekki jafn kátur og í stað þess að svara spurningum blaðamanna á fundi eftir leikinn, las hann upp tilbúna ræðu.

"Það er rosalega erfitt að taka þessum úrslitum og þetta var slæmur dagur fyrir stuðningsmennina sem og liðið. Ég vil bara biðja stuðningsmennina afsökunar á þessum úrslitum, en lífið heldur áfram og við verðum að bæta okkur mikið í framtíðinni. Ég get lofað því að við munum gera það," sagði Ertugrul Saglam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×