Erlent

Thorning-Schmidt vill komast að

Sighvatur Jónsson í Danmörku skrifar
Helle Thorning-Schmidt, formaður Jafnaðarmanna í Danmörku, í viðtali við Sighvat Jónsson, fréttaritara Stöðvar 2, á kosningafundi.
Helle Thorning-Schmidt, formaður Jafnaðarmanna í Danmörku, í viðtali við Sighvat Jónsson, fréttaritara Stöðvar 2, á kosningafundi. MYND/Sighvatur Jónsson - Stöð 2

Jafnaðarmenn í Danmörku vilja taka aftur skattalækkanir og byggja upp velferðarkerfið. Jafnaðarmenn hafa verið sex ár í stjórnarandstöðu og leggja mikla áherslu á að komast í stjórn.

Kosningabaráttan er hörð í Danmörku. Ungliðar frá stjórnarflokknum Venstre stríddu jafnaðarmönnum á kosningafundi með því að merkja sér fundarsvæðið. Þeir sögðust ekki vera að eyðileggja fyrir Helli - bara að sýna að það séu fleiri flokkar en Jafnaðarmenn.

Danskir jafnaðarmenn leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu velferðarkerfisins, á kostnað boðaðra skattalækanna ríkisstjórnarinnar. Aðspurð hvort Danir hafi ekki efni á því að skattar verði lækkaðir segir Helle Thorning-Schmidt, formaður Jafnaðarmannaflokksins, að Danir hafi ekki efni hvoru tveggja - og Jafnaðarmenn hafi sagt það skýrt að þeir leggjum áherslu á velferð, heilbrigðiskerfið, dagvistun og skóla, frekar en að lækka skatta.

Langri stjórnarsetu jafnaðarmanna í Svíþjóð lauk í fyrra. Aftur á móti sitja íslenskir jafnaðarmenn nú í stjórn eftir langa fjarveru. Aðspurð hvort jafnaðarmenn kæmust nú aftur til valda í Danmörku sagði Thorning-Schmidt að það væri óvíst - kosningarnar væru opnar og spennandi. Hún sagðist vona að hún yrði ráðherra eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, en hana þekkti hún mjög vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×