Fótbolti

Eiður gæti byrjað í Glasgow

AFP

Barcelona sækir Glasgow Rangers heim í E-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld. Ef marka má spænska miðla má allt eins gera ráð fyrir að Eiður Smári Guðjohnsen verði í byrjunarliði spænska liðsins.

Mikil meiðsli eru nú í herbúðum Barcelona þar sem Deco verður líklega úr leik næstu fimm vikurnar. Samuel Eto´o er meiddur og líka þeir Yaya Toure, Gianluca Zambrotta, Edmilson og Rafael Marquez.

Þá eru þeir Leo Messi, Thierry Henry og Gabi Milito einnig tæpir vegna meiðsla, en þeir fóru engu að síður með liðinu til Glasgow. Brasilíumaðurinn Ronaldinho er hinsvegar kominn aftur inn í hópinn eftir landsleiki með Brasilíu. Hann missti af leiknum við Villarreal

Skotarnir eru eflaust mjög sáttir við dómara leiksins í kvöld, en það er Austurríkismaðurinn Kondar Plautz. Það var hann sem dæmdi 1-1 jafntefli liðsins við Inter fyrir tveimur árum þegar liðið komst áfram í riðlakeppninni og það var líka Plautz sem dæmdi á Parc des Princes í síðasta mánuði þegar Skotar unnu frækinn sigur á Frökkum í undankeppni EM.

Þetta verður í fyrsta sinn sem þessi gömlu stórveldi mætast í Evrópukeppni en Rangers hefur unnið fjóra af níu heimaleikjum sínum gegn spænskum andstæðingum í Evrópukeppni. Barcelona hefur tapað fjórum af sex útileikjum sínum gegn skoskum liðum í Evrópukeppni.

Hóparnir í kvöld:

Rangers: McGregor, Hutton, Cuellar, Weir, Papac, Beasley, Ferguson, Thomson, McCulloch, Cousin, Carroll, Boyd, Novo, Adam, Whittaker, Faye, Naismith, Burke.

Barcelona: Valdes, Jorquera, Puyol, Thuram, Sylvinho, Oleguer, Abidal, Milito, Iniesta, Ronaldinho, Messi, Xavi, Giovani, Crosas, Henry, Ezquerro, Eiður Smári, Bojan.

Leikurinn verður sýndur beint á Sýn Extra 2 og hefst útsending 18:30. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×