Innlent

Drukkinn ökuníðingur eltur uppi

Lögreglan á Suðurnesjum þurfti í nótt að elta uppi ökumann sem ekki sinnti stöðvunarmerkjum. Lögreglan hugðist hafa afskipti að manninum laust fyrir klukkan sex í morgun þar sem hann var á ferð á Hringbraut við Skólaveg í Keflvík.

Í stað þess að stöðva bifreiðina ók maðurinn norður Hringbraut á mikilli ferð. Maðurinn náðist loks á Suðurvöllum eftir að bifreiðin stöðvaðist vegna bilunar. Á meðan á eltingarleiknum stóð var bifreiðinni ekið greitt yfir hraðahindranir sem urðu á vegi hennar.

Tveir voru í bílnum en ökumaður, sem grunaður er um ölvun við akstur, var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann verður yfirheyrður síðar í dag.

Þá þurfti lögreglan á Suðurnesjum að stöðva annan ökumann skömmu eftir miðnætti í nótt vegna ölvunaraksturs. Maðurinn ók rólega en gerði sig ekki líklegan til að stöðva bifreiðina og þurfti lögreglan að aka bifreið sinni í veg fyrir ökumann til að stöðva för hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×