Innlent

Meintir höfuðpaurar í smyglskútumálinu voru saman í Amsterdam

Meintir höfuðpaurar voru saman í Amsterdam mánuði áður en dópið var tekið á Fáskrúðsfirði.
Meintir höfuðpaurar voru saman í Amsterdam mánuði áður en dópið var tekið á Fáskrúðsfirði.
Bjarni Hrafnkelsson og Einar Jökull Einarsson, sem taldir eru vera höfuðpaurar í smyglskútumálinu á Fáskrúðsfirði, voru saman í Amsterdam mánuði áður en lögreglan lagði hald á 40 kíló af fíkniefnum í höfninni á Fáskrúðsfirði. Þetta hefur Vísir eftir öruggum heimildum.

Einar Jökull fór til Kaupmannahafnar um miðjan ágúst og hitti Bjarna þar nokkrum dögum síðar. Þeir fóru saman til Amsterdam í Hollandi og dvöldu þar í tvo daga. Heimildir Vísis herma að þar hafi farið fram kaup á þeim efnum sem síðar voru gerð upptæk á Fáskrúðsfirði.

Bjarni hélt síðan heim til Íslands en Einar Jökull dvaldi áfram í Kaupmannahöfn þar sem hann hitti smyglskútumennina tvo, Guðbjarna Traustason og Alvar Óskarsson. Hann fór síðan með þeim til bróður síns Loga Freys Einarssonar til Noregs. Eftir það skildu leiðir

Eins og Vísir hefur áður greint frá fylgist íslenska og danska lögreglan afar vel með ferðum hinna grunuðu í málinu. Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson, sem handteknir voru á smyglskútunni 20. september síðastliðinn, voru undir stífu eftirliti íslenskra og danskra lögreglumanna á mánaðarlöngu ferðalagi þeirra frá miðjum ágúst þar til þeir voru handteknir. Það ferðalag tvímenninganna náði til Danmerkur, Noregs, Hjaltlandseyja, Danmerkur, tíu daga stoppi í Færeyjum og loks til Fáskrúðsfjarðar.

Í Færeyjum gistu Guðbjarni og Alvar hjá Birgi Páli Marteinssyni. Þeir skildu eftir tvo kíló af amfetamíni hjá Birgi og var hann handtekinn fljótlega eftir að tvímenninganrir létu úr höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×