Körfubolti

Fékk svarið sem ég beið eftir

Friðrik Ragnarsson
Friðrik Ragnarsson

Þjálfarar Grindavíkur og KR voru miskátir með sína menn í kvöld eins og gefur að skilja. Friðrik Ragnarsson sagði sína menn í Grindavík hafa svarað tapinu ljóta gegn Keflavík á fullkominn hátt, en Benedikt Guðmundsson var hundóánægður með varnarleik sinna manna.

"Strákarnir eru búnir að hafa nokkra daga til að velta sér upp úr tapinu gegn Keflavík þar sem við vorum mjög daprir og þetta var búin að vera leiðinleg vika fyrir okkur. Það var frábært að ná í þennan sigur gegn KR og mér fannst þessi leikur vera skemmtun í hæsta gæðaflokki," sagði Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur.

"Deildin núna er sú sterkasta sem ég man eftir frá því ég byrjaði í körfubolta og því er mjög sætt að ná að vinna Íslandsmeistarana. Ég fór fram á að strákarnir svöruðu fyrir lélegan leik í Keflavík hér í kvöld og maður þarf sannarlega að spila vel til að vinna KR," sagði Friðrik.

Benedikt Guðmundsson var ósáttur við varnarleik sinna manna í kvöld, en ögn sáttari við sóknarleikinn. "Ég var nú bara ósáttur við varnarleikinn frá fyrstu mínútu. Við vitum alveg að þetta Grindavíkurlið getur skorað og þeir hittu vel í kvöld, en það breytir því ekki að maður er hundsvekktur yfir öllum þessum sniðskotum sem við vorum að gefa þeim hérna. Sóknarleikurinn er að smella hjá okkur og það er jákvætt, en við verðum að laga þennan varnarleik - sem á að vera okkar aðalsmerki," sagði Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×