Innlent

Fjórir smyglskútumanna í áframhaldandi gæsluvarðhald

 

 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu úrskurðað fjóra karla í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna rannsóknar fíkniefnamálsins á Fáskrúðsfirði.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að einn mannanna hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. nóvember vegna rannsóknarhagsmuna en honum er jafnframt gert að vera í einangrun, tveir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 8. nóvember vegna almannahagsmuna og einn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. nóvember vegna almannahagsmuna.

Ekki var gerð krafa um gæsluvarðhald yfir fimmta manninum en sá hefur hafið afplánun vegna dóma sem hann hefur hlotið áður.

Eins og kunnugt er lagði lögreglan hald á tugi kílóa af fíkniefnum þegar tveir mannanna komu siglandi á skútu til Fáskrúðsfjarðar þann 21. september. Þeir voru handteknir og sömuleiðis þriðji maðurinn sem beið þeirra á hafnarbakkanum. Tveir menn voru svo handteknir á suðvesturhorninu vegna málsins og hafa þeir allir fimm setið í gæsluvarðhaldi síðan. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim rann út í dag.

Upphaflega var talið að mennirnir hefðu smyglað um 60 kílóum af fíkniefnum til landsins. Fréttablaðið greindi hins vegar frá því að við nánari skoðun hafi kílóin reynst um 40, það er fjórtán kíló af E-töfludufti, tæp tuttugu og fjögur kíló af amfetamíni og 1.800 e-töflur.

Sjötti maðurinn sem talinn er tengjast málinu hér á landi, karlmaður á þrítugsaldri, var handtekinn á mánudag og hefur hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 23. október. Þá situr einn maður í gæsluvarðhaldi í Færeyjum vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×