Innlent

Textinn var lesinn upp fyrir Svandísi

Óli Tynes skrifar

Á aukafundi borgarstjórnar í gær sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri að hann hefði ekki áður verið kallaður lygari, í störfum sínum. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna sagði þá að hún hefði ekki notað það orð um Vilhjálm. Ef einhver fjölmiðill hefði haft það eftir sér, væri það rangt eftir haft.

Í viðtali við fréttamann á vísi.is í fyrradag sagði Svandís að Vilhjálmur hefði logið í umræðunni undanfarna daga. Þar sem þetta eru stór orð hafði viðkomandi fréttamaður samband við Svandísi þegar hann hafði lokið við fréttina, og lasa hana upp fyrir hana. Svandís staðfesti þá að rétt væri eftir henni haft.

Eftir ummæli Svandísar í borgarstjórn, þar sem hún sagðist ekki hafa kallað Vilhjálm lygara, var aftur haft samband við hana til þess að leita skýringa. Svandís sagði þá að hún myndi ekki eftir því að þessi orð í fréttinni hefðu verið lesin fyrir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×