Innlent

Milljarðaáhætta Orkuveitunnar

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Orkuveita Reykjavíkur leggur milljarða króna að veði í gegnum Reykjavík energy invest. Bæjarfulltrúi A-lista í Reykjanesbæ sakar borgarfulltrúa Reykjavíkur um að fórna Hitaveitu Suðurnesja í útrásinni og vill að Reykjanesbær kaupi hið nýsameinaða orkuútrásarfélag út úr Hitaveitunni.

Orkuveita Reykjavíkur er almannafyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar - og þar með íbúa þessara byggða. Reykjavík energy invest var ekki síst stofnað til að aðskilja áhættu Orkuveitunnar og borgaranna frá áhættu útrásarverkefnanna, segir forstjórinn. En hvaða áhættu er almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur að taka með því að fjárfesta - í gegnum Reykjavík energy invest í jarðvarmaverkefnum víða um heim - og sums staðar á svæðum þar sem ástandið er ótryggt? Þá gæti Orkuveitan, segir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík energy invest, tapað þessum fjórum milljörðum sem það hefur lagt til félagsins. Fari hins vegar allt á besta veg gæti það hagnast um milljarðatugi.

Nýja félagið á nú rúmlega 48 prósent í Hitaveitu Suðurnesja og Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar, segir menn í algerri óvissu um framtíð Hitaveitunnar. Guðmundur segir ekki stefnuna að búta hana niður. Guðbrandur blæs á það en segir alvarlegast þó að lýðræðislega kjörnir fulltrúar Reykjavíkur í stjórn Orkuveitunnar gæti hennar en fórni Hitaveitu Suðurnesja í útrásinni.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×