Innlent

Ráðherra burt af þingi

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Framsóknarmenn vilja að ráðherrar fái ekki að gegna þingmennsku samfara ráðherrastörfum. Það sé mikilvægt til að styrkja þingræðið í landinu.

Framsóknarflokkurinn kynnti strax í gær öll helstu þingmál sem flokkurinn ætlar að leggja fyrir í byrjun þings. Hann vill meðal annars láta gera úttekt á stöðu líffæragjafa, skoða stöðu svæðisbundinna fjölmiðla. Þá hyggst Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, að tala fyrir því að ráðherrar fái ekki að sitja á þingi.

Ekki er það nú í fyrsta sinni sem slíkt mál hefur verið flutt á þingi - sambærilegt frumvarp var lagt fram fyrst fyrir tíu árum. En Siv er bjartsýn á að málið njóti vaxandi stuðnings og vísar í ályktun ungliðahreyfinganna á Þingi unga fólksins frá síðustu helgi. Siv telur kostnaðinn við að kalla inn varamenn í stað þeirra tólf ráðherra sem nú sitja enga hindrun.

Þá ætlar Framsóknarflokkurinn að beita sér fyrir því að rafræn sjúkraskrá komist í gagnið á þessu kjörtímabili. Það er talið kosta hátt í tvo milljarða króna - fjárfesting sem þó er reiknað með að skili sér til baka á 4-5 árum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×