Innlent

Byltingarkennd tilraun

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Verulega mætti draga úr koltvísýringsmengun á Íslandi og víðar í heiminum ef tilgátur vísindamanna um bindingu koltvísýrings í jörðu reynast réttar. Sögulegur samningur var undirritaður í Hellisheiðarvirkjun í dag um byltingarkennda tilraun, segir forseti Íslands.

Í dag var undirritaður með viðhöfn samningur milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, Columbia háskóla í Bandaríkjunum og Rannsóknarráðs Frakklands um viðamikla rannsókn á því hvort raunhæft sé að breyta koltvísýringsmengun í grjót. Tilraunirnar færast nú út af rannsóknarstofunum og inn í Hellisheiðarvirkjun sem blæs nú um 30 þúsund tonnum af koltvísýringi frá sér á ári - en ef allt gengur upp - gæti hún orðið koltvísýringsfrí. Ýmsir vísuðu í töfra og ævintýri í dag - engin furða - því það er lyginni líkast fyrir leikmann að hugsanlega verði hægt að blanda hinum skaðlega koltvísýringi við vatn, dæla honum niður á 400-800 metra dýpi, ofan í gljúpt basaltið þar sem mengað vatnið hvarfast og verður að fallegu silfurbergi. Aðeins 3-5 ár eru í niðurstöður.

Forseti Íslands segir þetta mikilvægasta rannsóknarverkefni sem unnið er á Íslandi nú um stundir - og einstakt að reynt væri að breyta koltvísýringi í fast efni - eða silfurberg. Basaltlög eru víða í heiminum, meðal annars á Íslandi, í Bandaríkjunum, Indlandi og Rússlandi og ef niðurstaðan er jákvæð væri víða hægt að koma upp dælustöðvum, segir forsetinn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×