Íslenski boltinn

Margrét Lára hefur þjálfarastörf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir var nýverið valin besti leikmaður Landsbankadeildar kvenna fyrir umferðir 13-18.
Margrét Lára Viðarsdóttir var nýverið valin besti leikmaður Landsbankadeildar kvenna fyrir umferðir 13-18. Mynd/E. Stefán

Knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir hefur verið ráðin þjálfari 3. flokks kvenna hjá Val.

Hún er nýkrýndur Íslandsmeistari með Val og hefur um árabil verið ein þekktasta knattspyrnukona landsins þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur farið mikinn bæði með Val og íslenska landsliðinu á þessum tíma.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Margrét Lára haldi á næstunni til Svíþjóðar þar sem hún muni æfa með úrvalsdeildarliðinu Djurgården til reynslu.

„Þetta er ekki rétt,"sagði Margrét Lára í samtali við Vísi. „Það er ekkert ákveðið í þessum efnum."

Hún sagði að henni stæði til boða að æfa með fleiri félögum. „Djurgården er ekki eina félagið sem ég hef áhuga á. Það gæti vel verið að ég fari einhvern daginn og æfi með félaginu en ég ætla að taka minn tíma í þessum efnum. Það eina sem ég hugsa um þessa dagana er að við í Val komist áfram í Evrópukeppni félagsliða."

Aðspurð um hvernig áætlanir hennar um atvinnumennsku erlendis fari saman við þjálfaraferil hennar sagði hún svarið einfalt. „Þá tekur bara einhver annar við," sagði hún í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×