Innlent

Rannsakað hvort skúta hafi áður verið notuð til smygls

Lögreglan rannsakar nú hvort skútan Lucky Day sem kom til Fáskrúðsfjarðarhafnar fyrir tveimur árum hafi verið notuð til fíkniefnainnflutnings.

Bræðurnir Einar Jökull Einarsson og Logi Freyr Einarsson eru tveir þeirra sem sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna fíkniefnamálsins sem kom upp á Fáskrúðsfirði í vikunni. Fyrir tveimur árum sigldi Einar Jökull ásamt öðrum manni skútunni Lucky Day til Fáskrúðsfjarðar, fékk að hringja, tók síðan allt hafurtask úr skútunni þar með talið dýnurnar og hélt á brott. Þegar skútunnar var ekki vitjað var farið í að hafa upp á eiganda hennar og kom þá í ljós að bróðir Einars Jökuls, Logi Freyr, greiddi af henni hafnargjöld.

Lögreglan rannsakar nú hvort skútan Lucky Day hafi einnig verið notuð til fíkniefnainnflutnings, líkt og skútan sem kom í Fáskrúðsfjarðarhöfn á fimmtudag. Atburðarrásin fyrir tveimur árum þykir líkjast þeirri sem átti sér stað á fimmtudag um of þannig að ólíklegt er talið að um tilviljun sé að ræða. Þá, líkt og nú, vantaði á skútuna öll skráningarnúmer og aðeins var letrað á hana Bavaria 30 Cruiser. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sagði í samtali við fréttastofu þó ekki um sömu skútu að ræða.

Skútan sem notuð var við innflutninginn núna var flutt til Reykjavíkur í gærkvöldi og mun ítarrannsókn á henni hefjast eftir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×