Innlent

Hjólreiðamenn munaðarlausir í umferðinni

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Mörgum ökumönnum finnst hjólreiðamenn á þjóðvegum landsins vera til trafala, tefja umferð og vera hvimleiður fylgifiskur sumarsins. Umferðarstofa segir aðstöðuleysi leiða til þess að hjólreiðamenn verði eins og munaðarlausir í umferðinni. Margir erlendir ferðamenn telja hálendisvegi hér frábæra til hjólreiða vegna einstakrar náttúrufegurðar.

Aðstæður fyrir hjólreiðamenn mættu víða vera mun betri hér á landi. Á sumrin fer þeim sem hjóla fjölgandi, og úti á landi eru erlendir hjólreiðamenn áberandi yfir sumartímann.

Ökumenn kvarta stundum undan því að hjólreiðamenn sjái ekki aðvífandi umferð í sömu akstursstefnu og geti því ekki brugðist við. Reglurnar eru hins vegar þær að hjólreiðamenn eiga að hjóla í akstursstefnu, en gangandi eiga hins vegar að ganga á móti umferð.

Tillitsleysi ökumanna er helsta vandamál hjólreiðamanna þar sem ekki eru sérstakar hjólabrautir. Bjorn og Maike frá Þýskalandi segja hringveginn slæman, en í heimalandi þeirra mæti þeim hins vegar sömu aðstæður utan borga. Bjorn Langer og Maike Helbach segja ástandið gott hér miðað við í Þýskalandi þar sem umferðin sé minni.

Þeim finnast íslenskir hálendisvegir sérstaklega skemmtilegir fyrir hjólreiðamenn.

Sigurður Helgason hjá umferðarstofu segir að mun meira megi gera til að bæta skilyrði hjólreiðamanna hér á landi. Hann segir hjólreiðamenn í heildina litið til fyrirmyndar í umferðinni og slysum á þeim hafi fækkað umtalsvert. Hjálmar hafa einnig komið í veg fyrir mörg slys, sérstaklega á börnum.

Og því er tilvalið að brýna fyrir börnum og foreldrum að nota öryggisbúnað og fyrir ökumönnum að fara varlega nú þegar grunnskólar landsins taka til starfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×