Innlent

Sölsa undir sig eignir í miðborginni

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Fasteignafélagið Samson Properties með Björgólfsfeðga í fararbroddi sölsar nú undir sig hverja eignina á fætur annarri í miðborginni. Hugmyndir eru uppi um verslunarmiðstöð og íbúðir á svæðum sem félagið hefur eignast, en markmiðið er að efla mannlíf og athafnalíf í miðborginni.

Björgólfur Guðmundsson hefur verið talsmaður uppbyggingar í miðborginni um árabil. Nú hefur fasteignafélagið Samson sem er meðal annars í eigu feðganna Björgólfs og Björgólfs Thors, keypt fjölda fasteigna í miðborginni.

Meðal eignanna eru nánast öll hús á reit sem markast af Laugavegi, Vitastíg, Hverfisgötu og Barónsstíg, fjöldi húsa á reit sem markast af Laugavegi, Vatnsstíg, Lindargötu og Frakkastíg. Þá hefur félagið hugmyndir um uppbyggingu verbúðanna við Geirsgötu sem eru í eigu hafnarinnar.

Björn Ingi Hrafnsson formaður hafnarstjórnar Faxaflóahafna segir fund áformaðan í næstu viku með félaginu. Verbúðarhúsnæðið sé komið til ára sinna og hluti húsnæðisins kunni að þurfa að víkja vegna skipulags.

Hann fagnar áhuga einkaaðila að koma að uppbyggingu í miðborginni.

Íbúðir og verslunarmiðstöð eru meðal hugmynda um uppbyggingu reitsins við Laugaveg og Barónsstíg. Ásgeir Friðgeirsson talsmaður Björgólfsfeðga segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar, meginmarkmiðið sé að efla mannlíf og athafnalíf og miðborgina í heild sinni.

Hann tekur fram að eignir félagsins á Íslandi nemi einungis sjö prósentum af umsvifum þess á alþjóðavísu, en unnið er að svipuðum viðskiptum í nokkrum löndum Evrópu, meðal annars Finnlandi, Króatíu, Spáni, Danmörku og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×