Innlent

Annríki hjá lögreglu vegna fíkniefnamála

MYND/365

Sex fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Sautján ára piltur var stöðvaður við akstur í Háleitishverfi í gærmorgun. Hann var í annarlegu ástandi og á vettvangi fundust ætluð fíkniefni.

Hálfum sólarhring síðar voru höfð afskipti af karlmanni á þrítugsaldri á svipuðum slóðum. Sá er einnig grunaður um fíkniefnamisferli.

Nokkru áður fóru lögreglumenn að dvalarstað hálfþrítugs karlmanns á öðrum stað í borginni en hjá honum og félaga hans á líkum aldri fundust ætluð fíkniefni.

Rétt fyrir miðnætti stöðvaði lögreglan för fimm ungmenna í austurborginni en í bíl þeirra fundust ætluð fíkniefni. Ungmennin voru handtekin og flutt á lögreglustöð þar sem haft var samband við foreldra þeirra en eru öll á aldrinum 15-18 ára.

Eftir miðnætti var tvítugur piltur tekinn í miðborginni en hann er grunaður um fíkniefnamisferli.

í nótt fundust síðan ætluð fíkniefni í íbúð hálfþrítugs karlmanns í Hlíðahverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×