Innlent

Vegagerðin ætlar ekki að fjölga ferðum Herjólfs um Verslunarmannahelgina

Sighvatur Jónsson skrifar

Vegagerðin mun ekki verða við beiðni Vestmannaeyjabæjar um að bæta við fleiri næturferðum með Herjólfi um Verslunarmannahelgina. Ástæðurnar eru aukinn kostnaður og það að ekki er uppselt í þær ferðir sem áður hafði verið bætt við. Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir þetta mikil vonbrigði.

Til viðbótar við reglulegar tvær næturferðir Herjólfs hafði áður verið bætt við þremur aukaferðum fyrir og eftir Verslunarmannahelgina. Vestmannaeyjabær óskaði eftir tveimur ferðum til viðbótar hvoru megin við helgina, vegna flutninga fólks í tengslum við Þjóðhátíð Vestmannaeyja.

Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálstjóri, segir að þar sem ekki sé fullbókað í þær ferðir sem áður hafi verið ákveðnar hafi Vegagerðin ekki séð ástæðu til þess að fara fram á það við Eimskip, rekstraraðila Herjólfs, að fleiri næturferðir yrðu farnar en þegar hafi verið ákveðið. Auk þess sé þetta mikill kostnaður fyrir Vegagerðina, og að fyrir sé útgjaldaliðurinn "almenningssamgöngur" í halla hjá stofnuninni. Bæjarstjóri Vestmannaeyja er ósáttur við þessa niðurstöður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×