Innlent

Laxveiði að glæðast á ný

Gissur Sigurðsson skrifar

Laxveiði er víða að glæðast eftir mjög lélega veiði að undanförnu, sem aðallega er rakin til vatnsleysis í ánum vegna þurrka.

Vatnið í þeim hefur líka hlýnað upp úr öllu valdi þannig að laxinn hefur legið og ekki viljað taka beitu. Víða hefur hann líka legið út af árósunum og ekki gengið upp, eða hafst við í jökulánum og ekki gengið upp i ferskar þverárnar vegna vatnsleysis.

Dæmi voru um að veiðimenn reyndu ekki einu sinni að nýta veiðileyfi sín, en nú er dæmið hvarvetna að snúast við. Veiðin er þó hvergi nær komin í eðlilegt horf í mörgum ám, þrátt fyrir rigningu og vætu upp á síðkastið, en víða var grunnvatnsstaðan orðin mun lægri en í meðal ári. Í mörgum ám vantar líka fleiri hundruð laxa upp á að veiðin í ár sé orðin ámóta og í fyrra.

Ekki liggur fyrir hvernig seiðum í ánum hefur reytt af í vantsleysinu, en ef umtalsverð afföll hafa orðið á þeim, á það eftir að koma niður á veiðinni í náinni framtíð.

Seljendur veiðileyfa segjat þó ekki merkja að fastir viðskitavinir hafi fallið frá bókunum fram í tímann, en það færist í vöxt að sömu fyrirtæki, eða hópar, panti sömu veiðisvæðin á sama tíma, nokkur ár fram í tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×