Innlent

Styttri biðlistar eftir augasteinaaðgerðum náist samningar við ríkið

Augnlæknir í Reykjavík segist geta stytt biðlistana fyrir augasteinaaðgerðir náist samningar við ríkið um niðurgreiðslu á slíkum aðgerðum. Rúmlega sjö hundruð og fimmtíu manns bíða eftir að komast í augasteinaaðgerð á Landspítalanum og biðtíminn getur verið allt að eitt ár.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar tvö í vikunni að biðlistar eftir augasteinaaðgerðum á Landspítalanum hafa lengst gríðarlega á þessu ári þar sem rúmlega 750 manns bíða aðgerðar. Þetta er algengasta aðgerðin hér á landi sérstaklega hjá fólki milli fimmtugs og sjötugs. Til að svara eftirspurn verður nýrri skurðstofu komið upp á Landspítalanum sem tekin verður í notkun í ágúst.

Ólafur Már Björnsson augnlæknir sem rekur augnlæknastöðina Sjónlag segir Landspítalann einoka slíkar aðgerðir. Hann telur að hægt sé að draga verulega úr biðlistum ef einkareknar stofur fengju að framkvæma augasteinaaðgerðir. Til þess þyrfti samning við ríkið um niðurgreiðslu fyrir sjúklinga. Hann segir því öðruvísi háttað hjá hinum vesturlöndunum þar sem augasteinaaðgerðir fari fram jafnt utan sem innan spítalanna.

Augnlæknastofa Ólafs kom upp nýrri skurðstofu fyrir nokkru til að framkvæma augasteinaaðgerðir og hefur átt viðræður við heilbrigðisyfirvöld.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×